Saturday, April 7, 2007

Myndir

Ókunnug mannvera á fjölmennum stað
er pirruð og fær útrás
á þeim sem næst kemur
fær að launum róleg
og yfirveguð viðbrögð
hvetjandi og uppörvandi orð
sem slá á pirringinn.

Símtal sem kveikir væntingar
um skemmtilegar og kósý stundir
með góðum og velþekktum einstaklingum
í notalegu umhverfi.
Væntingar standast um stund
en svo kemur undarlegt andartak
sem fer öfugt inn í sálina
og lítið sár
myndast í hjartastað.
Skrýtna andartakið líður hjá
og andrúmsloftið verður jákvætt á ný
en ósögð orð eru geymd til betri tíma.
Stundin rennur upp
og andrúmsloftið er hreinsað
með velvöldum orðum.
Sálin og hjartasárið jafna sig að fullu
og allt verður gott aftur.

Sólskinsstundir
góð samskipti við einstaklinga
sem standa nærri mannverunni
í þekktu og öruggu umhverfi
gleði og hlátur
gaman saman
jákvæð og falleg orð
skapa gott andrúmsloft.

Undarlegt bréf
sem sýnir óvænt viðbrögð bréfritara
á ákveðnum aðstæðum
og afköstum viðtakenda.
Unnið verður í því seinna
þegar rétti tíminn kemur
að svara viðkomandi.

Kunnuleg og ný andlit á óþekktum stað
mannveran ekki í sínu besta formi
og hefur ekki orku
í mikil óþarfa samskipti.
Langar frekar að slaka á
láta hugann reika
og hlusta á viðtækið.
Ókunn kvenskynsvera
ruglar þeirri áætlun
raddböndin stoppa ekki
og tjá sig um allt og ekkert.
Mannveran er orðin
þreytt í eyrunum
en hlær innra með sér
því andrúmsloftið er frekar absúrd.
Sorglegt hvernig sumir fylla
upp í þögnina
með innantómum orðum.

Þetta ljóð spratt fram 07.04.2007

No comments: