Monday, May 28, 2007

Lífsbarátta

Maðurinn í rifnu fötunum
situr á bekk á torginu
með botnfulla flösku
og biður um smápeninga
fyrir kaffibolla
með slurk af einhverju sterkara samanvið
til að hita kroppinn sinn.
Hver er hann?
Hvernig komst hann í þessa aðstöðu?
Hver veit?
Var hann kannski verðbréfasali sem lifði hátt
tók áhættu
veðjaði á rangan markað
og tapaði öllu?
Eða hefur honum kannski alltaf gengið illa í lífinu
átt í basli með að halda sér í vinnu
og aldrei eignast fjölskyldu?

Þegar kvölda tekur
stendur hann upp af bekknum
og hefur leit að svefnstað.
Hér er allt upptekið
segir dyravörðurinn í gistiskýlinu.
Komdu aftur á morgun
fyrir klukkan 19:00
og vertu allsgáður.
Maðurinn snýr til baka vonsvikin
en þó öllu vanur.
Hann röltir inn í garðinn
og leggst niður á milli trjánna.
Nóttin er dimm og köld
og maðurinn grætur
örlög sín.
Á morgun kemur nýr dagur
og þá gengur vonandi betur.

No comments: